Skuldir Reykjanesbæjar nema ríflega 41,1 milljarði króna samkvæmt útkomuspá fyrir árið 2014. Samkvæmt fjögurra ára fjárhagsáætlun sem lögð var fram í bæjarstjórn í fyrradag er gert ráð fyrir því að skuldirnar muni lækka niður í 37,7 milljarða árið 2018. Samkvæmt útkomuspá munu tekjurnar nema 15,6 milljörðum króna á þessu ári. Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir því að þær muni hækka verulega á næstu árum eða í tæpa 19,5 milljarða árið 2018. Hér er verið tala um skuldir og tekjur samstæðunnar (A- og B-hluta).

Af ríflega 40 milljarða króna skuldum eru 13,5 milljarðar vegna leiguskuldbindinga. „Þetta er sá þáttur sem er þyngstur í vöfum fyrir okkur. Þetta er að langmestu leyti leiguskuldbindingar við Fasteign, sem við erum reyndar langstærsti eigandinn að. Þar eru undir nánast allar eignir bæjarins, allir skólar, sundlaugar og allt það sem var selt á sínum tíma. Við erum að reyna að vinda ofan af þessu. Langstærsti eigandinn að þessum lánum er slitastjórn Glitnis. Við funduðum með slitastjórninni í haust og skilaboðin voru þau að stjórnin vildi að við semdum við Fasteign. Þó við eigum langstærsta hlutinn í Fasteign þá eigum við engan fulltrúa í stjórn félagsins. Í kjölfar fjárhagslegrar endurskipulagningar þess var sett hlutlaus stjórn yfir það og við þurfum að semja við hana," segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .