Það er óhætt að segja að næg vélarorka sé fyrir hendi til að koma Volkswagen bjöllunni hans Ron Patrick þokkalega úr sporunum. Kappinn sem er vélaverkfræðingur með doktorsgráðu frá Stanford háskóla sýndi hinn háværa eldspúandi bíl sinn hjá nemendum Cass Technical High School í Detroit á mánudag.

Ron Patrick segir að vissulega sé druslan talsvert frek á bensínið en á móti komi að hann þurfi aldrei framar að óttast aftánakeyrslu frá afturstuðaraviðhengjum (tailgaters). Ástæðan er að aftan í bíl Patricks er hann búinn að koma fyrir þotuhreyfli sem skilar 1.350 hestöflum sem spýr eldsúlunni bein aftur úr bílnum. Patrick hefur ekki hugmynd um hversu hratt bíllinn kemst en telur nokkuð öruggt að hann komist á meiri hraða en 140 mílur á klukkustund (um 225 km) sem er hæsta talan sem hraðamælirinn sýnir.

Meðeigandi ECM fyrirtækisins í Sunnyvale í Kaliforníu, sem framleiðir mengunarmælingarbúnað, segir að mesti höfuðverkurinn hafi verið festa þotuhreyfilinn nægilega vel við bílinn svo hann flygi hreinlega ekki út í loftið.