Meirihluti ríkja heimsins, alls 136 lönd, hafa náð samkomulagi um skattabreytingar sem draga eiga úr skattasniðgöngu alþjóðlegra stórfyrirtækja og felur meðal annars í sér 15% lágmarkshlutfall tekjuskatts fyrirtækja. Er það sagt munu skila aðildarlöndunum allt að 150 milljörðum dala – tæpum 20 þúsund milljörðum króna – í auknar skatttekjur á ári hverju.

Viðræður hafa staðið yfir í áratug og samkomulaginu er í umfjöllun Wall Street Journal lýst sem mestu umbótum á alþjóðlegum skattareglum í 100 ár.

Við tekur nú innleiðingarferli reglnanna í hverju landi fyrir sig, en líklegt er talið að þónokkrar hindranir verði í vegi þess í mörgum ríkjanna, ekki síst Bandaríkjunum.

Fyrirtækjaskattsgólfinu er ætlað að koma í veg fyrir að alþjóðleg stórfyrirtæki hagi málum sínum þannig að slíkur skattur falli til í löndum með lágt eða ekkert skatthlutfall. Ein algengasta og áhrifamesta leiðin til þess er að færa hugverkaréttindi milli landa, og láta svo starfsemi í öðrum löndum greiða höfundarréttargjöld þangað og færa þannig hagnað til. Á því er meðal annars tekið í reglunum nýju.

Janet Yellen, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, segir lágmarkið sigur fyrir stórveldið, sem muni í krafti þess bæta getu sína til að innheimta af fyrirtækjum skatta til muna.

Meðal þátttökuríkja eru Írland, sem hefur verið þekkt fyrir lága fyrirtækjaskatta og laðað til sín mikinn fjölda stórfyrirtækja, auk Eistlands og Ungverjalands, en þau eiga það sameiginlegt að hafa ekki tekið þátt í bráðabirgðasamkomulagi í júlí síðastliðnum. Meðal landa sem höfnuðu þátttöku í samkomulaginu nú eru Nígería, Kenía, Sri Lanka og Pakistan.