13,6 milljarða ávinningur var af starfsemi VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs árið 2016 og ávinningur á hvern útskrifaðan einstakling úr þjónustu VIRK jókst frá fyrra ári. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Reiknaður meðalsparnaður á hvern útskrifaðan einstakling frá VIRK nam 12,2 milljónum króna á árinu 2016 samkvæmt skýrslu sem Vigfús Ásgeirsson tryggingastærðfræðingur hjá Talnakönnun hf vann fyrir stjórn VIRK. Meðalsparnaður á einstakling eykst milli ára, var rúmlega 10 milljónir árin 2013-2015.

„Þetta er fjórða árið í röð sem VIRK fær Talnakönnun til að greina árangur og ávinning af starfsemi sinni útfrá ópersónugreinanlegum upplýsingum úr gagnagrunni VIRK. Skýrslan sýnir 13,6 milljarða króna ávinning af starfsemi VIRK árið 2016 en niðurstöður fyrri athugana sýndu að ávinningurinn af starfi VIRK var 13,8 milljarðar 2015, 11,2 milljarðar króna 2014 og 9,7 milljarðar á árinu 2013. Í þessu samhengi má benda á að rekstrarkostnaður VIRK árið 2016 nam 2,4 milljörðum, 2,2 milljörðum 2015, 2 milljörðum 2014 og 1,3 milljörðum á árinu 2013,“ segir í tilkynningunni.