Raunávöxtun Lífeyrissjóðsins Framsýnar nam 13,6% árið 2004 og var ein sú besta í sögu sjóðsins. Hrein eign sjóðsins jókst um 12,8 milljarða króna eða 20% og nam alls rúmum 76 milljörðum króna í árslok. Góð ávöxtun skýrist aðallega af hagstæðri þróun á innlendum hlutabréfamarkaði á síðasta ári. Raunávöxtun sjóðsins síðustu fimm ár nemur alls 4,39%.

Góður árangur hefur náðst við að lækka rekstrarkostnað sjóðsins en hann nam aðeins 0,14% af heildareignum árið 2004 og lækkaði um 0,02% frá fyrra ári.

Séreignarsjóður skilaði rúmlega 12% raunávöxtun á síðasta ári og jukust eignir hans um tæplega 64% eða um rúmlega 410 milljónir. Samtals nemur hrein eign séreignarsjóðs, sem starfar í tveimur deildum, rúmum milljarði króna. Raunávöxtun séreignarsjóðs síðastliðin fimm ár nemur alls 9,3%.

Samkvæmt niðurstöðum tryggingafræðilegrar úttektar námu eignir samtryggingarsjóðs umfram áfallnar skuldbindingar alls 10,1 milljarði króna í lok ársins 2004 og jukust um tæplega einn milljarð milli ára. Hins vegar valda auknar lífs- og örorkulíkur sjóðfélaga því að tæplega 11 milljarða vantar upp á heildarskuldbindingar, samkvæmt úttektinni. Nemur fjárhæðin um 7,3% af heildareignum sjóðsins.'

Byggt á frétt á heimasíðu Landssambands lífeyrissjóða www.ll.is