Tæplega 136 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í janúar síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða 58.400 fleiri en í janúar á síðasta ári. Aukningin nemur 75,3% milli ára. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ferðamálastofu. Aldrei hefur mælst jafn mikil aukning í janúar milli ára frá því Ferðamálastofa hóf talningar á Keflavíkurflugvelli en mest hefur hún verið síðustu ár, eða 27,3% 2012-2013, 40,1% 2013-2014, 34,5% 2014-2015 og 23,6% 2015-2016, eins og sést á töflunni hér að neðan.

Bretar og Bandaríkjamenn lang fjölmennastir

Bretar og Bandaríkjamenn voru um helmingur ferðamanna en Bretar voru 28,2% og Bandaríkjamenn 22,8% af heildarfjölda. Tíu þjóðerni sem röðuðust þar á eftir voru eftirfarandi:

•    Kínverjar 5,4%
•    Þjóðverjar 4,4%
•    Frakkar 3,3%
•    Kanadamenn 3,1%
•    Japanir 2,4%
•    Hollendingar 2,2%
•    Svíar 1,9%
•    Pólverjar 1,9%
•    Spánverjar 1,8%
•    Danir 1,5%

„Bandaríkjamönnum fjölgaði langmest milli ára í janúar eða um 16.581 og voru þeir ríflega tvöfalt fleiri í ár en í fyrra. Bretum fjölgaði um 10.836 í janúar sem er 39,4% aukning frá því í fyrra, Kínverjum fjölgaði um 3.956 sem er meira en tvöföldun frá því í fyrra, Þjóðverjum um 2.734 sem er 83,7% aukning, og Kanadamönnum um 2.630 sem er nærri þreföldun frá því í fyrra. Þessar fimm þjóðir báru uppi 62,9% af aukningu ferðamanna milli ára í janúar ,“ er einnig tekið fram í tilkynningunni.

Fleiri Íslendingar fara erlendis

7.255 fleiri Íslendingar fóru erlendis í janúar 2017 en í sama mánuði árið áður en í heildina fóru utan þann mánuðinn.

Um er að ræða 24,2% fleiri brottfarir en árið 2016.