Samanlagt námu tekjur sveitarfélaganna 312,2 milljörðum króna í fyrra en gjöld námu 283,1 milljarði. Hér er verið að vísa í tölur úr rekstrarreikningi A- og B-hluta árið 2014. Gjöldin jukust um 8% milli ára eða 21,1 milljarð, reiknað á verðlagi ársins 2014. Frá árinu 2002 hefur kostnaður við rekstur sveitarfélaga aldrei aukist jafnmikið milli ára. Á milli áranna 2005 og 2006 jókst hann um 7,6%. Eftir hrun var samdráttur í rekstri sveitarfélaganna og þá drógust bæði tekjur og kostnaður saman.

Launakostnaður er langstærsti útgjaldaliður sveitarfélaganna. Í fyrra greiddu þau 138 milljarða króna í laun og launatengd gjöld. Launakostnaður sveitarfélaganna jókst um 9,9 milljarða á milli ára, reiknað á verðlagi ársins 2014, eða 8%. Væntanlega má rekja þetta að stærstum hluta til kjarasamnings kennara í fyrra.

Af ríflega 20.400 starfsmönnum sveitarfélaga eru tæplega 7.200 í Kennarasambandi Íslands. Nálægt 35% starfsmanna sveitarfélaganna eru því í Kennarasambandinu. Í Árbók sveitarfélaga, sem kom út í vikunni, kemur fram að laun og launatengd gjöld hafi hækkað um 15,1% milli áranna 2013 og 2014.

Viðskiptablaðið greindi í gær frá skuldastöðu sveitarfélaga, en þrettán sveitarfélög skulda meira en 150% af tekjum sínum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .