Norðlenska verðbréfafyrirtækið Íslensk verðbréf skilaði 138 milljóna króna hagnaði á árinu 2013 samkvæmt ársreikningi félagsins. Það er aðeins lakari niðurstaða en árið 2012 þegar félagið skilaði 175 milljóna króna hagnaði. Eigið fé félagsins nam 591 milljón króna í árslok og var eiginfjárhlutfall félagsins 35,5%. Eins og fjallað er um í skýringu stjórnar fóru fram sameiningarviðræður við Gam management hf. í upphafi árs en upp úr þeim slitnaði. Um svipað leyti gerði MP banki stærstu hluthöfum félagsins tilboð í eignarhluti þeirra og var tilboðið samþykkt með fyrirvörum en upp úr þeim viðræðum slitnaði í febrúar 2014.

Í skýringu í ársreikningi ÍV er minnst á að tvö mál séu rekin fyrir dómstólum gegn félaginu af hálfu slitastjórnar Kaupþings annars vegar og Landsbankans hins vegar. Farið er fram á riftun greiðslu upp á 147 milljónir króna í öðru málinu og riftun upp á 267 milljónir í hinu málinu.