Heildartekjur 365 ljósvakamiðla og 365 prentmiðla námu 4.976 milljónum kr fyrstu níu mánuði ársins og hafa þær aukist um 26,5% frá fyrra ári. Þannig námu tekjur af ljósvakamiðlum 2.868 milljónum kr. fyrstu níu mánuði ársins og jukust um 17% miðað við sama tímabil í fyrra. Tekjur af prentmiðlum námu 2.107 m.kr. og jukust um 43% milli ára. Framlegð af rekstri fjölmiðlanna nam 1.699 m.kr. eða 34% af veltu. EBITDA nam 685 m.kr. fyrstu níu mánuði ársins 2005, eða um 14% af veltu.

Í tilkynningu Og fjarskipta til Kauphallarinnar er haft eftir Eiríki S. Jóhannssyni forstjóra Og fjarskipta hf. að staða fjölmiðlahluta Og fjarskipta sé ákaflega sterk. ?Stöð 2 hefur sett met í fjölda áskrifenda á þessu ári. Stafrænar útsendingar undir merki Digital Ísland, hafa gjörbreytt valmöguleikum áskrifenda 365 ljósvakamiðla á einu ári. Í Digital Ísland er að finna fjölbreytt úrval efnis í gegnum Stöð 2, íþróttarásina Sýn, Sirkus og erlendar sjónvarpsrásir. Fjöldi stöðva í Digital Ísland er nú 52, þar á meðal fjölbreytt úrval erlendra stöðva. Sífellt fleiri heimili velja því Digital Ísland sem framtíðarljósvakamiðil. ?

Hann segir að mikill kraftur hafi einnig einkennt rekstur 365 prentmiðla á þriðja ársfjórðungi og hafi tekjur aukist um 43% frá fyrra ári. ?Fréttablaðið er stærsta dagblað landsins en meðallestur blaðsins var tæplega 68% samkvæmt síðustu fjölmiðlakönnun í september. Staða Fréttablaðsins er ákaflega sterk í öllum aldurshópum.? Eiríkur segir ennfremur að 365 prentmiðlar hafi lagt af stað með metnaðarfull áform í blaðaútgáfu á þessu ári. ?Má þar nefna ýmis fylgiblöð og tímarit, svo sem tímaritið Sirkus og lífstílsstímaritið Veggfóður. Árangurinn af hraðri uppbyggingu hefur ekki látið á sér standa á fyrstu níu mánuðum ársins,? segir Eiríkur í tilkynningunni.