Gistinætur á hótelum í nóvember í fyrra voru 138.800 talsins. Það er 20% aukning á milli ára, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar . Á fyrstu ellefu mánuðum ársins voru gistinætur 1.929.757 talsins sem er 14% aukning frá árinu 2012.

Gistinóttum erlendra gesta fjölgaði um 25% á milli ára í nóvember en 14% á fyrstu ellefu mánuðum ársins. Gistinóttum Íslendinga fjölgaði hins vegar um 6% á milli ára í nóvember en um 11% á milli ára á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2013.

Fram kemur á vef Hagstofunnar að í nóvember fjölgaði gistinóttum á hótelum á höfuðborgarsvæðinu um 21% á milli ára, um 52% á hótelum á Vesturlandi og Vestfjörðum og um 40% á Suðurlandi. Á Austurlandi nam aukningin 37%. Á Suðurnesjum voru gistinætur 12% fleiri í nóvember en í sama mánuði árið 2012.