Jarðvarmi slhf, félag 14 lífeyrissjóða, sem á fjórðungshlut í HS Orku, hefur bætt við hlut sinn og á félagið nú 33,4% hlut í HS Orku. Hlutur Alterra Power, sem áður hét Magma Energy, hefur að sama skapi lækkað ú 75% í 66,6%.

Þetta er í samræmi við kauprétt Jarðvarma síðan í júní í fyrra þegar félagið keypti fjórðungshlut Alterra Power í HS Orku fyrir 8,1 milljarð króna. Í kaupréttinum fólst jafnframt að Jarðvarmi getur aukið hlut sinn í allt að 50% af hlutafé HS ORku með kaupum á þeim nýju hlutum sem kunna að verða gefnir út í framtíðinni.

Fram kemur í tilkynningu frá HS Orku í dag að Jarðvarmi kaupir rúma 878,2 milljón nýja hluti í HS Orku á genginu 5,35 krónur á hlut. Heildarkaupverð nemur því um 4,7 milljörðum króna. Þetta er um 15,6% hærra en verðið í upphaflegu viðskiptunum þegar Jarðvarmi keypti 25% hlut á genginu 4,63 krónur fyrir hvern hlut. Þessu samkvæmt hefur félag lífeyrissjóðanna keypt hlutabréf í HS Orku fyrir 12,8 milljarða króna á tæpu ári.

Í tilkynningu HS Orku kemur fram að söluandvirðið verði nýtt sem eiginfjárframlag félagsins í stækkun Reykjanesvirkjunar úr 100 MW í 180 MW. Gert er ráð fyrir að viðskiptin gangi í gegn fyrir lok mánaðar.