Hagnaður Tryggingamiðstöðvarinnar fyrstu níu mánuði ársins 2004 er 1.398 mkr. en var 602 mkr. fyrir sama tímabil árið áður. Megin skýringin á auknum hagnaði er óvenju mikill hagnaður af sölu fjárfestinga á tímabilinu, 1.492 mkr. samanborið við 366 mkr. fyrir sama tímabil árið áður. Hagnaður af fjármálarekstri er 876 mkr. en var 350 mkr. árið áður. Tekjur af hlutdeildarfélögum eru 42 mkr., en voru 21 mkr. á sama tímabili árið áður. Hagnaður af rekstri dótturfélaga er 13 mkr. samanborið við 9 mkr. árið áður. Hagnaður af sölu fjárfestinga er 1.492 mkr. en var 366 mkr. árið áður.

Fjárfestingartekjur yfirfærðar á vátryggingarekstur eru 1.322 mkr. samanborið við 654 mkr. árið áður. Undir liðnum önnur gjöld er gjaldfærsla á afskrift af viðskiptavild vegna kaupa á Tryggingu hf. að fjárhæð 83 mkr.
Hagnaður af vátryggingarekstri á tímabilinu er 880 mkr. sem er talsvert meira en áður hefur verið fyrir sambærilegt tímabil, var 523 mkr. árið áður. Eigin iðgjöld tímabilsins eru 3.709 mkr. en voru 3.844 mkr. árið áður sem er lækkun um 3,5%. Tjónaþungi er í meira lagi, eigin tjón á móti eigin iðgjöldum eru 89,0% en voru 82,7% árið áður. Lækkun iðgjalda og hækkun tjónahlutfalls má að mestu rekja til lækkunar á iðgjaldstöxtum, einkum í ökutækjatryggingum.

Eitt stórt tjón lenti á félaginu á tímabilinu þegar m/s Baldvin Þorsteinsson EA strandaði á Skarðsfjöru. Þetta tjón er áætlað 180 mkr. Það tjón er að mestu uppgert, en eigin hlutur félagsins er um 60 mkr.

Megin ástæðan fyrir þessum góða hagnaði af vátryggingarekstri er miklar reiknaðar fjárfestingartekjur sem má rekja til óvenju mikils söluhagnaðar af hlutabréfum í eigu félagsins. Stór hluti þess söluhagnaðar reiknast sem tekjur í vátryggingarekstrinum. Reiknaðar fjárfestingartekjur af skaðatryggingastarfsemi eru 1.322 mkr. en voru 655 mkr. árið áður. Hlutfall fjárfestingartekna af eigin iðgjöldum er 35,6% en var 17,0% árið áður. Niðurstöður vátryggingarekstrarins ber að skoða í ljósi þessa.
Hagnaður af eignatryggingum er 77 mkr. en tap hefur verið á rekstri greinarinnar á undanförnum árum. Góð afkoma er einnig í lögboðnum ökutækjatryggingum, 524 mkr. og slysa- og sjúkratryggingum, 185 mkr. Bókfærður hagnaður þessara greina skýrist að mestu af óvenju miklum fjármunatekjum sem þeim eru reiknaðar.