Stefnt er að því að reisa kísilverksmiðju í Helguvík. Þeir sem að verkefninu standa hafa fengið jákvæð viðbrögð frá þeim stofnunum og ráðuneytum sem hafa eitthvað um málið að segja, en hafa ekki fengið leyfi fyrir verksmiðjunni í hendur. Komist áætlunin til framkvæmdar verður um að ræða fyrstu framleiðslu á hreinum kísil á Íslandi.

Fyrsti áfangi verkefnisins kostar 109 milljónir evra, eða tæpa 14 milljarða króna, og þegar hefur fengist fjármögnun fyrir honum. Forsvarsmaður hópsins sem að verksmiðjunni stendur er Magnús Ólafur Garðarsson. Magnús segir stóran þátt í þeirri ákvörðun að hafa verksmiðjuna í Helguvík vera höfnin sem þar er, þar sem hún er greið útflutningsleið. Að sögn Magnúsar er kísilframleiðsla umhverfisvænni en álframleiðsla, auk þess sem framboð á kísil sé ekki nægilega mikið um þessar mundir.

„Það er eiginlega þess vegna sem ekki er framleitt nóg af sólarrafhlöðum, því það vantar kísil,“ segir Magnús. Fyrsti áfangi Icelandic Silicon Group verður að framleiða 99% hreinan kísil. Það skref hefur þegar verið fjármagnað. Annað skref fyrirtækisins væri að framleiða 100% hreinan kísil og þriðja skrefið væri framleiðsla á sólarrafhlöðum.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .