Íslendingar, danskt fyrirtæki og alþjóðlegur stórnotandi á kísil eru langt komnir með áform sín um að reisa kísilverksmiðju í Helguvík. Búið er tryggja 109 milljónir evra eða 13,7 milljarða króna til þess að reisa fyrsta áfanga verksmiðjunnar og er vonast að það verði árið 2011.

80% fjármunanna koma frá alþjóðlegum stórnotanda á kísil og það sem eftir stendur kemur frá fjórum íslenskum verkfræðingum og danska fyrirtækinu Tomahawk development.

Umhverfismati á verkefninu fer senn að ljúka.

Helsta hindrun kísilverksmiðjunnar er að ekki hefur enn tekist að tryggja nægilega mikla raforku til framleiðslunnar, sem er nokkuð orkufrek, að sögn forsvarsmanns verkefnisins.

Um 90 störf munu skapast þegar kísilverksmiðjan er komin á fullt skrið með fyrsta áfanga. Stefnt er að því að framleiða einnig sólarrafhlöður en það yrði þriðji áfangi verkefnisins.

„Þetta verður fyrsta framleiðsla á hreinum kísil á Íslandi,“ segir Magnús Ólafur Garðarsson, sem fer fyrir hópnum og á helmings hlut í danska fyrirtækinu Tomahawk development, sem er fjárfestir  í téðri kísilverksmiðju. Gangi allt að óskum mun hún heita Icelandic Silicon Corporation.

Magnús segir að Ísland hafi orðið fyrir valinu fyrir kísilverksmiðjuna því  hér sé vistvæn orka og ódýr. Stór þáttur þess að Helguvík varð fyrir valinu er höfnin; sem greið útflutningsleið.

Hann segir að hugmyndin sé jafnframt sú að framleiða eitthvað annað en ál á Íslandi en kísilframleiðsla er umhverfisvænni starfssemi.

Hann segir kísilverksmiðju valda mjög litlum umhverfisáhrifum miðað við önnur fyrirtæki sem eru í málmbræðslu á Íslandi. Magnús segist vera búinn að fá viðbrögð frá 15 stofnunum og ráðuneytum sem hafa um málið að segja.

Framboðið af kísil er ekki nægilega mikið um þessar mundir.  „Það er eiginlega þess vegna sem ekki er framleitt nógu mikið af sólarrafhlöðum, því það vantar kísil,“ segir Magnús. Heimsmarkaðsverð á kísil er hátt um þessar mundir. Kísilverð er nú hærra en álverð, að hans sögn, en sögulega er verðfylgni þeirra á milli.

Að verkefninu standa auk Magnúsar: Egill Ármannsson fjármálaverkfræðingur, Haukur Frímannsson byggingarverkfræðingur, Halldór Svavarsson, prófessor í hálfleiðurum (semi conducters) við Háskólann í Reykjavík, og Helgi Björn vélaverkfræðingur.