*

laugardagur, 29. janúar 2022
Innlent 2. september 2020 10:25

14 milljarða fjárfesting ef samið

Norðurál vill fastsetja meðalverð á raforku til stóriðju til áratuga til að geta farið út í framleiðslu á álboltum hér á landi.

Ritstjórn
Gunnar Guðlaugsson var ráðinn forstjóri Norðuráls síðasta sumar, en þá hafði hann verið framkvæmdastjóri álversins á Grundartanga í áratug.

Gunnar Guðlaugsson forstjóri Norðuráls segir félagið tilbúið í 14 milljarða króna fjárfestingu hér á landi til að geta hafið framleiðslu á svokölluðum álboltum, og eða á íblönduðu áli, svokölluðu melmi að því er Fréttablaðið greinir frá. Að hans mati væri hægt að fara af stað með verkefnið innan nokkurra vikna, sem kallaði á 80 til 90 störf á byggingartímanum og um 40 varanleg.

„En til þess að geta ráðist í slíka fjárfestingu þyrfti Norðurál orkusölusamning til tíu eða tuttugu ára[...] Við erum ekkert að biðja um nein afsláttarkjör eða niðurgreiðslu, við viljum bara fá sama verð og meirihluti raforku er seldur á núna á Íslandi,“ segir Gunnar sem segir þriðjung af orkuverði til félagsins tengt Nord Pool raforkumarkaðnum, afgangurinn álverði.

„Samkvæmt ársskýrslu Landsvirkjunar 2019 var meðalverð til stóriðju um 23 dalir á megavattstund, eitthvað í kringum þá tölu yrði ásættanlegt fyrir Norðurál. Þó að Nord Pool-verðið sé lægra en það í augnablikinu þá værum við reiðubúin að ganga út úr núgildandi samningi við Landsvirkjun gegn því að fá nýjan samning til lengri tíma á þessu bili, til dæmis tíu til tuttugu ára.“

Tenging við álverð gefist betur en ótengdan raforkumarkað

Gunnar segir eðlilegt að tekist sé á um raforkuverð til stóriðju í landinu, en eins og fjallað hefur ítarlega um hefur Landsvirkjun verið að færa raforkusöluverð sitt í auknum mæli í átt að meðalverði raforku á meginlandi Evrópu.

„Við erum í þeirri sérstöku stöðu hér á Íslandi að fá fyrirtæki eru að kaupa langstærstan hluta raforkunnar í gegnum langtímasamninga. Það segir sig auðvitað sjálft að ef eitthvert þessara fyrirtækja hættir starfsemi þá er enginn til þess að taka við þeirri raforku sem þá losnar[...] Við þessu hefur verið brugðist með því að taka upp ríka kaupskyldu í samningum,“ segir Gunnar.

„Það hefur afar sjaldan gerst að álfyrirtæki hér dragi úr framleiðslu þegar álverð er lágt vegna þess að rafmagnsverðið hefur lagað sig að álverðinu[...] Með þessu kerfi hafa byggst upp stór og öflug orkufyrirtæki á grunni álverðstengdra orkusölusamninga. Mín skoðun er einfaldlega sú að það kerfi hafi reynst okkur vel og við eigum að hugsa okkur vel um áður við köstum því fyrir róða.“