Fjárveitingar Evrópusambandsins (ESB) í formi styrkja hingað til lands eru allar í biðstöðu eftir að íslensk stjórnvöld ákváðu að gera hlé á aðildarviðræðum. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. ESB auglýsti eftir umsóknum fyrir 8,3 milljónir evra, eða um 1,4 milljarða íslenskra króna, í lok síðasta árs. Í síðustu viku sagði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra að í skoðun væri hvaða verkefni væru beintengd viðræðunum og hver ekki. Þeim fyrrnefndu yrði ekki haldið til streitu en styrkir frá ESB yrðu þegnir fyrir önnur verkefni.

Hallgrímur Jónasson, forstöðumaður Rannís, segir allt ferlið nú í biðstöðu en að boltinn sé hjá stjórnvöldum. Ekki sé vitað hvenær gengið verði frá styrkjunum en þeir hafi gert ráð fyrir að búið væri að greiða þá út á þessum tímapunkti.