Um 98,7 milljónir evra, eða um 14,4 milljarðar króna, voru lagðar inn í Compass Iceland Bidco, félag sem heldur utan um kaup framtakssjóðsins Levine Leichtman Capital Partners (LLCP) á meirihluta hlutafjár Creditinfo Group fyrir rúmu ári síðan. Um var að ræða 10 ára lán frá félögum í Bretlandi og Þýskalandi. Í lok síðasta árs var ákveðið að hækka hlutafé félagsins um 4,8 milljarða króna með skuldajöfnun.

Út frá söluverðinu sem Ísflex, félag Hákonar Stefánssonar, fékk fyrir sinn 1,88% hlut í Creditinfo má ætla að samstæðan hafi verið metin á 17,6 milljarða í viðskiptunum. Markaðurinn sagði frá því á sínum tíma að virði Creditinfo í viðskiptunum væri metið á 20-30 milljarða króna, en endanleg fjárhæð myndi velta á fjárhagslegum markmiðum.

Reynir Grétarsson, stofnandi Creditinfo sem starfar nú sem forstjóri SaltPay, átti fyrir viðskiptin nærri 70% hlut í Creditinfo en fer nú með 38% hlut í Compass Iceland Bidco samkvæmt fyrirtækjaskrá.