Vegagerðin þarf að greiða Brimgörðum ehf. ríflega 14 milljónir króna samkvæmt úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta. Málið varðar spildur í landi Esjubergs og á jörðinni Móa sem teknar voru eignarnámi vegna lagningar hringvegarins og hliðarvegar á Kjalarnesi.

Sú fyrrnefnda er rúmir 35 þúsund fermetrar en sú síðarnefnda tæpir 1.600. Brimgarðar mótmæltu lögmæti eignarnámsins og fóru fram á fullar bætur alls fjártjóns, auk þess að landinu yrði skilað í óbreyttu ástandi. Nefndin taldi eignarnámið heimilt.

Vegagerðin hafði talið hæfilegar bætur 254 krónur á fermetra, miðað við 2,5 milljóna króna grunnhektaraverð Þjóðskrár á Kjalarnesi. Nefndin taldi það hins vegar ekki gefa fyllilega raunhæfa mynd af verðmæti landsins og taldi rétt að miða við 3,1 milljón, eða 310 krónur á fermetra.

Því til viðbótar bæri Vegagerðinni að bæta þann fjárhagslega skaða sem nýtt vegsvæði hefði á það land sem Brimgarðar ættu enn á svæðinu, þar sem sá hluti muni eftirleiðis sæta takmörkunum vegna nálægðar við veginn.

Þá bæri að bæta það rask og ónæði sem af framkvæmdunum hlytist. Loks var Vegagerðinni gert að greiða Brimgörðum 930 þúsund krónur í málskostnað, og ríkissjóði 1,5 milljónir vegna starfa matsnefndarinnar.