Þýska þingið hefur samþykkt að stofnaður verði 100 milljarða evra sjóður, eða sem nemur tæplega 14 þúsund milljörðum króna, til að fjármagna nútímavæðingu þýska hersins. Innrás rússneskra stjórnvalda í Úkraínu hefur breytt stefnu Þýskalands í varnarmálum, að því er kemur í grein hjá Financial Times.

Sjóðurinn verður fjármagnaður með skuldsetningu þýska ríkisins, en breyta þarf stjórnarskrá Þýskalands til að hægt sé að stofna sjóðinn. 567 þingmenn kusu með breytingartillögunni, 96 voru á móti og 20 þingmenn sátu hjá. Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, lagði fram tillöguna, en fyrir atkvæðagreiðsluna komu ráðherrar ríkisstjórnarinnar í viðtöl og töluðu fyrir tillögunni.

Christine Lambrecht, varnarmálaráðherra sagði í viðtali við Bundestag að öryggi landsins kosti fjármuni og að Þýskaland verði að geta varið sig með herafla. Annalena Baerbock, utanríkisráðherra, sagði Þýskaland skulda Nato og sínum evrópsku bandamönnum að efla herinn sinn sem hafi verið fjársveltur í langan tíma.

Sjóðurinn er umdeildur meðal þingmanna vinstra megin á pólitíska ásnum. Græninginn Frank Bsirske benti á í viðtali að fjárlög til varnarmála hefðu þegar hækkað um þriðjung á síðustu árum og að útgjaldaaukningin væri til þess fallin að draga úr fjármögnun annarra mikilvægra mála.