Almenningur var spurður um traust sitt til ýmissa stofnana samfélagsins og eru talsverðar breytingar á niðurstöðunum milli ára. Traust eykst talsvert til forsetaembættisins, heilbrigðiskerfisins, lögreglunnar og dómskerfisins. Traust til Alþingis eykst lítillega. Minnst traust mælist til bankakerfisins eða 14%. Þetta kemur fram í Þjóðarpúls Gallup sem mælir traust til stofnana.

Sú stofnun sem flestir bera mikið traust til er eins og áður Landhelgisgæslan, en 92% þeirra sem taka afstöðu bera mikið raust til hennar. Lögreglan er í öðru sæti en hlutfall þeirra sem bera mikið traust til hennar hækkar mikið frá því í fyrra. Nú bera 85% mikið traust til lögreglunnar.

Forseti Íslands hástökkvari

Forseti Íslands situr í fjórða sæti mælingu Gallup. Forsetinn færist upp um eitt sæti á listanum og fjölgar þeim sem segjast bera mikið traust til embættisins um heil 26 prósentustig frá því í fyrra en hlutfallið fer úr 57% í 83%. Um 76% bera mikið traust til Háskóla Íslands, en í fyrra mældist hlutfallið 72%. Þar á eftir kemur heilbrigðiskerfið en 62% bera mikið traust til þess.

Dómskerfið sækir á

Slétt 51% ber mikið traust til umboðsmanns Alþingis, hhelmingur þeirra sem taka afstöðu ber mikið traust til ríkissaksóknara og 48% til ríkissáttasemjara.

Um 43% bera mikið traust til dómskerfisins, sem er talsvert hærra hlutfall en í fyrra þegar 32% sögðust bera traust til þess. Um 38% bera mikið traust til þjóðkirkjunnar og 33% til Seðlabanka Íslands. Þá bera 22% mikið traust til embættis umboðsmanns skuldara en í fyrra var hlutfallið 28%.

Um 22% bera mikið traust til Alþingis, en í fyrra var hlutfallið 17%. Um 19% bera traust til borgarstjórnar, sama hlutfall til fjármálaeftirlitsins.

Lestina rekur svo bankakerfið, en 14% bera mikið traust til þess, sem er þó 2 prósentustigum fleiri en í fyrra.

Könn­unin var hluti af net­könnun sem Gallup gerði dag­ana 9. til 21. febr­ú­ar, heild­ar­úr­tak var 1.411 manns og þátt­töku­hlut­fallið 59,8%.