Verðbólga á evrusvæðinu mældist 1,4% í maí mánuði og dregst saman um hálft prósentustig frá því í apríl. Eru tölurnar 0,1% lægri en spár greiningaraðila höfðu gert ráð fyrir. Þetta kemur fram í gögnum frá eurostat frá því fyrr í dag.

Eurostat greindi einnig frá því í dag að atvinnuleysi á evrusvæðinu mældist 9,3% í apríl mánuði sem er lægsta stig atvinnuleysis síðan í mars 2009.

Tölurnar eru í samræmi við verðbólgutölur frá Þýskalandi sem komu út í gær. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær þykja tölurnar renna stoðum undir orð Mario Draghi forseta Seðlabanka Evrópu frá því á mánudaginn um að enn sé þörf á aðgerðum seðlabankans til að örva hagkerfi evrusvæðisins.