Velta kínverska samfélagsmiðilsins TikTok nam rúmlega 990 milljónum Bandaríkjadala á síðasta ári, eða sem nemur rúmum 140 milljörðum króna. Veltan hjá TikTok nam 172 milljónum dala árið 2020 og sexfaldaðist því á milli ára, að því er kemur fram í grein Financial Times.

Meira en 802 milljónir dala af veltunni kom í gegnum auglýsingatekjur. Þar af kom stór hluti tekna TikTok í gegnum Evrópumarkað, eða um 530 milljónir dala. Árið áður námu tekjur TikTok í Evrópu 114 milljónum dala.

Samfélagsmiðillinn tapaði hins vegar 896 milljónum dala á árinu, fyrir skatta. Jókst tapið um þriðjung milli ára vegna aukins launakostnaðar.

Þá jókst sölu- og markaðskostnaður TikTok um 90% milli ára og nam 666 milljónum dala á síðasta ári. Stjórnunarkostnaður félagsins nam 212 milljónum dala og jókst um 30% milli ára.

TikTok er í eigu kínverska tæknifyrirtækisins ByteDance. Samkvæmt Bloomberg er TikTok 50 milljarða dala virði og ByteDance 275 milljarða dala virði.