Haldið var upp á það í dag í höfuðstöðvum Dominos á Íslandi að búið er að hala niður 20.000 eintökum af smáforriti sem gerir viðskiptavinum fyrirtækisins kleift að panta sér pizzur og annan mat í gegnum snjallsíma og annan nettengjanlegan búnað. Aðeins fimm mánuðir eru síðan smáforritið var kynnt. Þetta er fram úr björtustu vonum forsvarsmanna fyrirtækisins.

Fram kemur í tilkynningu frá Dominos að talið sé að innan ekki of langs tíma muni meira en helmingur pantana hjá Dominos hér á landi berast eftir öðrum leiðum en símaverinu. Mikil söluaukning hafi  átt sér stað hjá Dominos í gegnum netið undanfarið og nemur aukningin nokkuð hundruð prósentum.

Útbreiddasta íslenska appið?

Dominos-appið er fyrsta íslenska snjallsímaforritið sem hannað er til að panta mat. Appið gerir notendum snjallsíma kleift að panta pítsur og aðra rétti af matseðli Dominos úr símanum sínum án þess að fara í gegnum símaver fyrirtækisins. Um 70% þeirra sem hlaðið hafa appinu niður, hafa notað það til að panta pítsu frá Dominos, eða samtals u.þ.b. 14.000 Íslendingar. Forsvarsmenn Dominos telja líklegt að 20.000 niðurhala áfanginn geri Dominos appið að einu útbreiddasta appi landsins.

Þeir sem kaupa sér mat með smáforritinu þurfa ekki að bíða svangir með tóman maga heldur geta þeir fylgst með því í rauntíma hvar pöntunin er stödd í ferlinu. Hægt er að sjá hvort pöntunin hafi verið móttekin, hvort undirbúningur sé hafinn, hvort pítsan sé komin í ofninn og hvenær sendillinn leggur af stað eða hvort pítsan sé tilbúin til að vera sótt.

Hægt er að ná í appið í með því að leita að „Dominos á Íslandi“ í Android og iPhone símum.