Hagnaður Sterums-Burðarás Fjárfestingabanka eftir skatta fyrstu níu mánuði ársins 2005 nam 14.103 milljónum króna en var um 6.223 milljónir króna á sama tímabili í fyrra og hækkar því um 127%. Hagnaður eftir skatta á þriðja ársfjórðungi nam 6.473 milljónum króna, jókst um 107% milli ára.

Hagnaður bankans fyrir skatta fyrstu níu mánuðina nam 16.742 milljónum króna og er það 122% aukning frá fyrra ári.

Hagnaður á hlut á fyrstu níu mánuðum ársins var 2,08 krónur og hækkar um 38% frá sama tímabili í fyrra.

Hreinar rekstrartekjur frá áramótum námu 18.278 milljónum króna og jukust um 130% frá fyrra ári.

Rekstrarkostnaður sem hlutfall af hreinum rekstrartekjum var 3,9% á fyrstu níu mánuðum ársins og hreinar rekstrartekjur sem hlutfall af heildareignum 7,7%

Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 29,9% á fyrstu níu mánuðum ársins sem gerir 41,7% arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli.

Heildareignir bankans námu 234.403 milljónum króna en voru 89.644 milljónir króna í árslok 2004 og hafa því vaxið um 161% frá áramótum.

Eigið fé var 105.448 milljónir króna í lok þriðja fjórðungs og hefur aukist um 225% frá áramótum. Eiginfjárhlutfall á CAD-grunni var 18,1%, þar af A-hluti 15,6%

Útlán til viðskiptamanna námu 46.304 milljónum króna og hafa útlán vaxið um 83% frá áramótum.

Virðisrýrnun á fyrstu níu mánuðum ársins 2005 var 543 m.kr. Sérstök virðisrýrnun 282 mkr. var færð vegna áhættufjárfestinga samstæðunnar. Framlag í afskriftarreikning á fyrstu níu mánuðunum til að mæta ófyrirséðu útlánatapi var 261 mkr.

Lántaka bankans nam 67.675 milljónum króna í lok þriðja fjórðungs og skuldir við lánastofnanir voru 43.673 milljónir króna.

"Ég er ánægður með góðan árangur Straums-Burðaráss á þriðja ársfjórðungi. Bankinn hefur styrkt stöðu sína á öllum sviðum. Vaxta- og þjónustutekjur aukast og útlán til viðskiptavina vaxa í hverjum ársfjórðungi. Samruni Straums og Burðaráss eflir bankann, eigið fé hefur þrefaldast frá áramótum og umsvif bankans á erlendum verðbréfamörkuðum hafa aukist. Verðmæti hlutabréfaeignar bankans hefur vaxið í kjölfar samrunans og er afkoma hennar mjög góð. Bankinn hefur nýverið gengið frá sölu á öllum hlutum sínum í Icelandic Group, Keri og Eglu og fyrir liggur opinbert tilboð í allt hlutafé í Skandia sem bankinn hefur samþykkt fyrir sitt leyti. Framundan er áframhaldandi uppbygging á fjárfestingabankastarfsemi innanlands sem utan og styrkir samruninn þau markmið okkar enn frekar," segir Þórður Már Jóhannesson, forstjóri Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka í tilkynningu frá félaginu.