Skil ársreikninga fyrirtækja og félaga hafa batnað en ástandið er ennþá verra hérlendis en í nágrannalöndum. Sektarákvæði hafa leitt til bættra skila en í fyrra voru 1.417 félög sektuð vegna vanskila á ársreikningi ársins 2010.

Þessar upplýsingar koma fram í grein Ólafs Magna Sverrissonar viðskiptafræðings í Tíund, fréttablaði ríkisskattstjóra, og Morgunblaðið greinir frá í dag. Lokaskiladagur ársreikninga er 31. ágúst ár hvert og er lítill hluti ársreikninga kominn til skila á þeim tíma. Í fyrra hafði einungis 22,1% skilaskyldra félaga, sem samtals voru 33.081 talsins á síðasta ári, skilað fyrir 31. ágúst. Þróunin er þó í rétta átt, þar sem sama hlutfall var 18,2% árið 2009.