Fimm bankar hafa verið sektaðir um samtals rúmlega milljarð evra, andvirði rúmlega 147 milljarða íslenskra króna, fyrir verðsamráð á gjaldeyrismarkaði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

Bankarnir fimm eru JPMorgan, Barclays, Citigroup, RBS og MUFC að því fram kemur í tilkynningunni. Samráðið náði til ellefu gjaldmiðla eða evrunnar, pundsins, jensins, svissneska frankans, dollara Bandaríkjanna, Kanada, Nýja Sjálands og Ástralíu auk dönsku, sænsku og norsku krónunnar.

Um tvær ákvarðanir var að ræða. Sú fyrri nær til Barclays, RBS, Citigroup og JPMorgan en hún hefur verið kölluð „Three Way Banana Split“. Heildarsektin þar nam 811 þúsund evrum. Síðari ákvörðunin, í „Express Train“-málinu, nær til Barclays, RBS og MUFG og nam sektar upphæðin þar tæpum 258 þúsund evrum. UBS er einnig aðili að báðum málum en bankanum var ekki gerð sekt þar sem hann upplýsti um hið ólögmæta samráð. Um sátt var að ræða í málunum.

Samráðið átti sér stað í spjallhópum á netinu þar sem starfsmenn bankanna skiptust á upplýsingum. Nöfn málanna má rekja til nafna spjallhópanna. Einn þeirra, sá sem brúkaður var í síðara málinu hét Essex Express 'n the Jimmy. Ástæðan er sú að allir í hópnum, að Jimmy undanskildum, bjuggu í Essex og tóku sömu lest til vinnu í London. Annar hópur, Semi Grumpy Old Men , var einnig notaður í málinu. Hóparnir í hinu málinu voru fleiri og kallaðir Three Way Banana Split / Two and a half men og Only Marge.

Sektirnar taka til brota sem áttu sér stað á árunum 2007 til 2013. Samkvæmt Bloomberg ákvað Credit Suisse að semja ekki við samkeppnisyfirvöld og hyggst láta reyna á málið fyrir dómstólum.