Um 15% af hækkun íbúðaverðs undanfarin þrjú ár má rekja til fjölda heimila í útleigu á Airbnb að því er kemur fram í nýrri skýrslu Íslandsbanka um ferðaþjónustuna. Þar segir að áhirf Airbnb til hækkunar á íbúðamarkaði séu metin um 2% að raunvirði á hverju ári.

Airbnb gisting hefur vaxið gríðarlega á undanförnum tveimur árum og er orðin næstvinsælasta gistileiðin á eftir hótelunum. Fjölgun gistinátta hefur fyrst og fremst verið drifin áfram af landsbyggðinni. Á síðasta ári fjölgaði gistinóttum Airbnb á landsbyggðinni um 322% samanbotrið við 42% fjölgun á höfuðborgarsvæðinu.

Heildarfjöldi seldra gistinátta árið 2017 var um 11,6 milljónir. Þar af voru 4,3 milljónir á hótelum, 3,2 milljónir á Airbnb, 1,3 milljónir á gistiheimilum og önnur gistiþjónusta telur 2,8 milljónir gistinátta.

Hvað tekjur af Airbnb gistingu varðar námu heildartekjur leigusala í gegnum Airbnb 19,4 milljörðum í fyrra sem er aukning um 109% frá fyrra ári.