Hagnaður Össurar á fjórða ársfjórðungi jókst um 15% frá fyrra ári og nam hann í heildina 14 milljónum Bandaríkjadala eða sem samsvarar 1,6 milljörðum íslenskra króna.

Sala á fjórðungnum jókst um 13% frá fyrra ári og nam hún í heildina 138 milljónum Bandaríkjadala, eða sem samsvarar 15,6 milljörðum íslenskra króna.

Hagnaður á árinu nam 10% af sölu

Á árinu öllu nam hagnaðurinn 51 milljón Bandaríkjadala, eða 6,1 milljarði íslenskra króna, sem er um 10% af sölu, sem nam 521 milljón Bandaríkjadölum á árinu. Það samsvarar 62,8 milljörðum íslenskra króna, en söluvöxtur nam 9% frá fyrra ári.

EBITDA leiðrétt fyrir einskiptiskostnaði nam því sem samsvarar 11,9 milljörðum íslenskr akróna, eða 98 milljónum dala, sem samsvarar 19% af sölu.

15% af hagnaði greiddur út sem arður

Í fréttatilkynningu kemur fram að gengissveiflur höfðu neikvæð áhrif á rekstrarniðurstöðu ársins, sérstaklega styrking íslensku krónunnar og veiking breska pundsins.

Stjórn félagsins hyggst leggja til að 15% af hagnaði ársins verði greiddur út sem arður eða sem nemur 0,12 dönskum krónum, eða 2 íslenskum krónum á hlut.

Söluvöxtur og tvö fyrirtæki keypt

„Það er okkur mikil ánægja að ljúka árinu með sterkri rekstrarniðurstöðu," er haft eftir Jóni Sigurðssyni forstjóra í fréttatilkynningu.

„Söluvöxtur var góður í EMEA og í Ameríku, bæði á stoðtækjum sem og spelkum og stuðningsvörum. Við festum kaup á tveimur góðum fyrirtækjum á árinu, Medi Prosthetics og Touch Bionics.

Medi Prosthetics framleiðir og selur stoðtæki á heimsvísu og kaupin á Touch Bionics gerir okkur kleift að bjóða upp á bestu gervihendurnar á markaðnum í dag.

Á árinu komum við einnig fram með spennandi vörunýjungar í spelkum og stuðningsvörum og má þar sem dæmi nefna nýjustu slitgigtarspelkuna okkar, Unloader® Hip”

Þar kemur jafnframt fram áætlun fyrir árið 2017:

  • Söluvöxtur í staðbundinni mynt á bilinu 7-8%.
  • Innri söluvöxtur í staðbundinni mynt á bilinu 4-5%.
  • EBITDA framlegð leiðrétt fyrir einskiptiskostnaði á bilinu 19-20% af sölu.
  • Fjárfestingar (CAPEX) um 4% af sölu.
  • Virkt skatthlufall um 26% af sölu.