Eric Garcetti, borgarstjóri Los Angeles, undirritaði á laugardaginn lög sem munu hækka lágmarkslaun í borginni úr 9 dollurum á klukkutíma í 15 dollara, eða sem nemur 2000 íslenskum krónum á næstu fimm árum.

Áður hafði borgarráðið samþykkt tillöguna. Nú þegar hefur verið sett af stað áætlun um að hækka lágmarkslaun í Kaliforníufylki í 10 dollara á klukkutíma árið 2016. Í bandaríska þinginu er einnig verið að ræða það að hækka lágmarkslaun í Kaliforníu upp í 13 dollara á klukkutíma fyrir árið 2017.

Í Los Angeles hafa nokkrir þrýstihópar meðal annars eigendur veitingastaða, leikhúsa og minni fyrirtækja mótmælt áætlunum um lágmarkslaunahækkun.

Los Angeles er nýjasta borgin í röð annarra til að hækka lágmarkslaun sín og er jafnframt stærsta borgin í Bandaríkjunum til að innleiða hærri lágmarkslaun. San Francisco ákvað í nóvember á síðasta ári að hækka lágmarkslaun í 15 dollara á klukkutíma fyrir árið 2018, San Diego mun hækka lágmarkslaun í 11,5 dollara fyrir árið 2017, Chicago mun hækka lágmarkslaun í 13 dollara fyrir árið 2019 og Seattle mun hækka þau í 15 dollara fyrir árið 2018.