Rúmlega 28 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá Keflavíkurflugvelli í maímánuði í ár en voru um 35 þúsund í fyrra. Ef með eru taldar brottfarir um 1300 erlendra gesta um Akureyrarflugvöll er fækkun gesta um 14,8% á milli ára. Rekja má fækkun ferðamanna til þeirrar röskvunar sem varð á flugsamgöngum vegna eldgossins í Eyjafjallajökli.

Nýjar tölur frá Ferðamálastofu um brottfarir frá Leifsstöð í maí sýna að fækkun hefur orðið frá öllum mörkuðum. Fækkunin er mest frá Bretlandi og Norðurlöndunum og hefur gestum þaðan fækkað um fjórðung á milli ára. Hins vegar hefur fjölgun orðið á brottförum Íslendinga á milli ára, í maímánuði var fjölgunin 4% og það sem af er ári hafa 2,8% fleiri Íslendingar lagt í ferðlag.

Um 116 þúsund erlendir gestir hafa farið frá landinu um Leifsstöð í ár. Að meðtöldum 2300 brottförum erlendra gesta um Akureyrarflugvöll er fækkun á milli ára um 2,8%. Í tilkynningu frá Ferðamálastofu segir að framundan séu stærstu ferðamannamánuðir ársins og vonir standa til að landkynningarátak, sem ber heitið Inspired by Iceland, nái að vega upp á móti neikvæðum áhrifum gossins.