Á árinu 2007 er fyrirhugað að hefja byggingu 15 hæða skrifstofu- og verslunarhúss, svokallaðs Norðurturns á norðvestur-horni lóðar Smáralindar með 2ja hæða tengibyggingu sem opnast inn í verslunarmiðstöðina að því er kemur fram í tilkynningu Smáralindar til Kauphallarinnar.

Kemur opnunin inn í miðstöðina þar sem verslunin Útilíf er á efri hæð og Ormsson og Lyfja á neðri hæð. Ljóst er að tilkoma Norðurturnsins mun hafa verulega jákvæð áhrif á rekstur verslana í Smáralind segir í tilkynningunni.

Á sama hátt og undanfarin ár hefur gestum Smáralindar fjölgað á milli ára og veltan hefur aukist. Á árinu 2006 komu 5,2% fleiri gestir í Smáralind en árið á undan og heildarveltan jókst um 11,7% milli ára.