Í janúar lækkaði meðalverð á flugmiðum hjá Norwegian Air Shuttle ASA um 15% frá sama mánuði í fyrra.

Flaug félagið með rúmlega 2,1 milljón farþega í síðasta mánuði, en farþegafjöldinn var tæplega 1,8 milljón í janúar 2016. Fjölgunin er því um 20% að því er fram kemur í Morgunblaðinu.

Sætanýting og framboð jókst

Sætaframboð félagsins jókst um 28% á sama tíma og sætanýtingin jókst úr 81,7% í 83%, en félagið er með um 120 flugvélar í rekstri.

Gengi bréfa félagsins lækkaði um ríflega 4% í norsku kauphöllinni í gær í kjölfar þess að félagið birti flutningstölur sínar. Reyndist lækkun meðalverðs í upphafi ársins meiri en gert hafði verið ráð fyrir.

Frá því um áramót hefur gengi bréfa félagsins lækkað um 9,4% en markaðsvirði félagsins var samkvæmt lokagengi félagsins í gær ríflega 9,3 milljarðar norskra króna, sem samsvarar um 127,5 milljörðum íslenskra króna.