Á árunum 2007-2010 verður 15 milljörðum króna varið til framkvæmda í vegamálum. Með þessu er framkvæmdafé til vegagerðar meira en tvöfaldað á þessu tímabili. Þar af er gert ráð fyrir að verja 8 milljörðum í gerð Sundabrautar.

Í gildandi vegáætlun fyrir árin 2005?2008 er gert ráð fyrir samtals 360 m.kr. fjárveitingum í gerð vegar frá Sæbraut að Hallsvegi í Grafarvogi, svokallaðri Sundabraut. Verk þetta hefur lengi verið í undirbúningi. Úrskurður um mat á umhverfisáhrifum fyrir þennan vegarkafla liggur fyrir en hann var kærður til umhverfisráðherra sem væntanlega fellir úrskurð varðandi kærurnar nú á næstunni. Kostnaður þessa áfanga hefur verið metinn á bilinu 7½?14½ milljarður króna eftir því hvaða leið og útfærsla er valin. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að verja 8 milljörðum króna til þessa verks. Þessi ákvörðun tekur mið af því að svonefnd innri leið verði valin í samræmi við álit Vegagerðarinnar. Ráðgert er að hefja framkvæmdir um mitt ár 2007 og stefnt að verklokum 2010.

Ákvörðun ríkisstjórnarinnar felur jafnframt í sér áframhaldandi lagningu Sundabrautar upp í Geldinganes og um Álfsnes upp á Kjalarnes. Undirbúningi verði þannig háttað að unnt verði að ráðast í framkvæmdirnar samhliða árin 2009 til 2010 og síðari áfanga, þ.e. um Álfsnes upp á Kjalarnes, verði lokið árið 2011. Áætlaður kostnaður við síðari áfanga verksins er á bilinu 6-8 milljarðar króna og er fyrirhugað að hann verði boðinn út og fjármagnaður í einkaframkvæmd.