Danska fyrirtækið eCommerce 2020 sem rekur smálánafyrirtækin Kredia, 1909, Smálán, Múla og Hraðpeninga átti í lok síðasta árs skammtímakröfur upp á 83,7 milljónir danskra króna eða sem nemur rúmlega 1,5 milljörðum íslenskra króna samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2018. Hagnaður af reglulegri starfsemi nam á síðasta ári 10,3 milljónum danskra króna eða rúmlega 180 milljónum íslenskra króna.

Félagið hefur frá árinu 2017 rekið smálánastarfsemi á Íslandi undir nafni fyrrnefndra fyrirtækja sem hafa boðið skammtímalán með mörg hundruð prósenta samanlögðum vöxtum og lántökukostnaði þrátt fyrir að á árinu 2013 hafi verið sett lög sem áttu að hindra óhóflega háan lántökukostnað. Kváðu lögin á um að heildarkostnaður við lántöku eða árleg hlutfallstala kostnaðar, mætti ekki vera hærri en 50% af höfuðstóli á ári að viðbættum stýrivöxtum Seðlabankans.

Eigandi eCommerce er breska félagið Kredia Group Ltd. sem er með aðsetur í fjármálahverfinu Canary Wharf í London. Fyrirtækið skilgreinir sig sem fjártæknifyrirtæki og er samkvæmt bresku fyrirtækjaskránni að mestu í eigu forstjóra fyrirtækisins, Tékkans Ondrej Smakal.