Styrkjakerfi ríkisins sem niðurgreiðir búvöruframleiðslu íslenskra bænda kostar hvert og eitt heimili um 200 þúsund krónur á ári. Kostnaður ríkisins af styrkjakerfi búvöruframleiðslunnar var í kringum 35 milljarðar á árinu 2014. Ásgeir Friðrik Heimisson, hagfræðingur og starfsmaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, segir þetta í pistli um málið á Rómi , nýju vefriti frjálslyndra.

Í pistli Ásgeirs segir meðal annars að afurðaverð bænda hér á landi sé mun hærra en heimsmarkaðsverð sömu afurða ef miðað er við gögn frá Alþjóðlegu efnahagsstofnuninni OECD. Til að mynda er afurðaverð á mjölkurvörum hérlendis tvöfalt hærra en að jafnaði ef innflutningur væri frjáls og heimsmarkaðsverð réði verðlagningu.

Kostnaður ríkisins af búvörustyrkjakerfinu myndi duga fyrir heilum tveimur nýjum Landspítölum á þriggja ára fresti ef kerfið væri lagt niður. Grófar áætlanir Ásgeirs í pistlinum gera þá einnig ráð fyrir því að ef styrkjakerfið væri afnumið myndi meðalfjölskyldan spara um 122 þúsund krónur í matvælakostnað á ári hverju - umframkostnaður neytenda nam einhverjum 15 milljörðum króna.

Fjallað verður ítarlegar um málið í tímariti hagfræðinema, Hjálmum, sem fer í dreifingu með Viðskiptablaðinu þann 18. febrúar.