Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, úthlutuðu í rúmlega 1,5 milljörðum króna úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða og Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Að því er segir í tilkynningu gerir úthlutunin kleift að halda áfram verkefninu að byggja upp innviði á ferðamannastöðum.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitir styrki til 33 verkefna um allt land árið 2020 og nemur samanlögð upphæð styrkjanna 501,5 milljónum króna. Hæstu styrkirnir að þessu sinni eru styrkir til byggingar útsýnispalls á Bolafjalli í Bolungarvíkurkaupstað, áframhald uppbyggingar við Stuðlagil beggja vegna árinnar og bætt fráveitumál í Hrafntinnuskeri. Önnur verkefni sem fá hærra en 15 milljón króna styrki eru bætt salernisaðstaða við Aldeyjarfoss og bygging skýla til náttúruskoðunar við fuglastíg á Norðausturlandi.

Gert er ráð fyrir um þriggja milljarða framlagi til þriggja ára, sem rennur til verkefnaáætlunar Landsáætlunar um uppbyggingu innviða sem gildir fyrir árin 2020-2022. Alls hafa verið skilgreindir 119 ferðamannastaðir, ferðamannaleiðir og ferðamannasvæði, þar sem aðgerðir hafa þegar hafist fyrir tilstuðlan landsáætlunar eða eru fyrirhugaðar til og með ársins 2022.

Í tilkynningunni segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra:

,,Ef við horfum nokkur ár aftur í tímann þá bárust okkur reglulega fréttir af bráðum úrlausnarefnum vegna álags á náttúruna af völdum ferðamanna á ferðmannastöðum, oft innan friðlýstra svæða. Ég tel að við höfum náð botninum í þessu og tekist, hratt og örugglega, að snúa þessari þróun við sem skilar sér í frekari vernd náttúrunnar og jákvæðari upplifun ferðamanna. Landsáætlun um uppbyggingu innviða og Framkvæmdasjóður ferðamannastaða eru gríðarlega mikilvæg og jafnframt nauðsynleg tæki til þess að taka á þessum málum með markvissum hætti.“

Þá segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

„Það er ánægjulegt að fylgjast með því hvernig það kerfi um náttúruvernd og uppbyggingu innviða sem var búið til með stofnun Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og Landsáætlun um uppbyggingu innviða heldur áfram að styrkjast og skila árangri. Það er lykilatriði fyrir þá samhæfðu ferðaþjónustu byggða á grunni gæða sem framtíðarsýn okkar, um að íslensk ferðaþjónusta verði leiðandi í sjálfbærri þróun árið 2030, byggir á.“