Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Meniga hefur samið við BPCE, annan stærsta banka Frakklands, um að innleiða netbankalausnir Meniga og bjóða viðskiptavinum bankans persónulegri notendaupplifun að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Um 15 milljón manns munu fá aðgang að hugbúnaði Meniga í gegnum bankann. Bankastjóri BPCE samstæðunnar, François Pérol, tilkynnti samstarfið í París fyrr í vikunni á hinni virtu fjármálaráðstefnu Paris Fintech Forum .

„Með því að innleiða hugbúnað Meniga getur BPCE boðið viðskiptavinum sínum margfalt betri þjónustu og notendaupplifun. Við stöndum á tímamótum þar sem bankar keppa ekki lengur bara við aðra banka heldur einnig tæknirisa á borð við Facebook, Google og Apple. Síðastliðið ár hefur verið það farsælasta í sögu Meniga og aldrei hafa fleiri bankar ákveðið að vinna með Meniga til að bæta snjallsíma- og netbanka umhverfi sitt og eiga í  persónulegri samskiptum við viðskiptavini sína.“ er haft eftir Braga Fjalldal, framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar og markaðsdeildar Meniga, í tilkynningu frá félaginu.

„Nú þegar bankastarfsemi gengur inní nýtt tímabil þar sem gögn eru aðgengilegri en nokkru sinni fyrr, hlökkum við til að vinna náið með Meniga til að umbreyta stafrænu umhverfi bankans. Lausnir Meniga munu flýta fyrir og styðja vegferð BPCE í nýsköpun til að mæta sífellt vaxandi kröfum viðskiptavina okkar,“ er einnig haft eftir François Pérol, bankastjóra BPCE samstæðunnar.