Alls hafa um 15 milljónir ökutækja farið um Hvalfjarðargöng á tíu árum eða frá því þau voru opnuð sumarið 1998. Umferðin jókst jafnt og þétt ár frá ári en í efnahagsþrengingunum nú fækkar bílum á þjóðvegum landsins og þar með í göngunum segir í frétt á heimasíðu Spalar.

Á síðasta rekstrarári Spalar fóru liðlega tvær milljónir bíla undir fjörðinn eða 5.484 bílar á sólarhring að jafnaði. Þetta er mesta umferð í göngunum á einu rekstarári frá upphafi (rekstrarárið er frá októberbyrjun til septemberloka).

Þar segir að víst sé að almanaksárið 2008 hefði líka orðið metár í umferðinni ef efnahagskreppan hefði ekki komið til en það stefnir í að vera með næstmesta umferð frá upphafi. Metárið 2007 var umferðin að jafnaði 5.563 bíla á sólarhring.

Alls eru um 36.300 veglyklar í notkun í bílum landsmanna og fjölgaði um 10% frá fyrra ári.