Malcolm Walker, stofnandi Iceland-matvöruverslunarkeðjunnar, segir í samtali við breska dagblaðið The Times að salan fyrir jól hafi aukist um 15% frá fyrra ári.

Walker stofnaði Iceland fyrir um 30 árum síðan og tók aftur við stjórnataumunum þegar fyrirtækið var keypt af íslenskum fjárfestum.

Félagið er að mestu leyti í eigu Baugs og Pálma Haraldssonar, og hefur orðið viðsnúningur á rekstrinum síðan félagið var tekið yfir, að sögn Pálma og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs.

Bæði Pálmi og Jón Ásgeir sögðu að útlit væri fyrir að tekist hefði að snúa við rekstrinum á árinu 2005 í samtali við blaðamann Viðskiptablaðsins á síðasta ári, en vildu ekki tjá sig frekar um málið fyrr en tölur um jólaverslun væru fáanlegar.

Hópur fjárfesta undir forystu Baugs keypti og afskráði Big Food Group, sem rak Iceland og Booker verslanirnar í Bretlandi, fyrir 326 milljónir punda, eða rúmlega 35 milljarða íslenskra króna á núverandi gengi.

?Við hættum einfaldlega að gera heimskulega hluti," segir Walker um söluaukninguna. ?Iceland er fyrirtæki sem jók sölu og hagnað í 29 af þeim 30 árum sem ég sá um reksturinn. Í þau fjögur ár sem ég var ekki við stjórnvölinn dróst bæði hagnaður og sala saman."

Síðan Big Food Group var tekið yfir og afskráð hafa stjórnendur lokað heimilisvörueiningu félagsins, sem var rekin með tapi, og breytt töluvert af búðum í Cooltrader-búðir. Um 400 manns var sagt upp í kjölfar yfirtökunnar.