„Það eru 15 einstaklingar í Íslenskri erfðagreiningu sem áttu kauprétti og sem munu hafa fjárhagslegan ávinning af þessu," segir Kári þegar hann er spurður um hversu margir lykilstarfsmenn hagnist á sölunni til Amgen. Aðspurður um hans hlut segist hann vera á meðal þessara 15 aðila.

Hann vill ekki gefa upp hversu stór hluti af söluandvirðinu fór til þessara 15 starfsmanna.  „Það er ekki mitt að opinbera upplýsingar um persónuleg fjármál fólks. Það mun koma í ljós vegna þess hvernig skattgreiðslur eru gerðar opinberar á Íslandi," segir Kári. Ef starfsmennirnir greiða skatt af hagnaði vegna kaupréttanna á þessu ári má búast við að þessar upplýsingar verði opinberar í ágúst á næsta ári þegar álagningarskrár ríkisskattstjóra verða gerðar opinberar.

Erfitt getur verið að meta umfang kauprétta starfsmanna en samkvæmt gögnum sem lögð voru fram við kaup Saga Investment á Íslenskri erfðagreiningu út úr þrotabúi Decode í lok árs 2009 þá gæti verið um talsverðar fjárhæðir að ræða. Hlutafé Saga átti þá að vera átta milljónir dollara en heimilt var að auka það hlutafé upp í allt að 15 milljónir dollara. Af þessum sjö milljónum hluta sem heimildir voru fyrir að gefa út voru tvær milljónir vegna hvatakerfis stjórnenda Íslenskrar erfðagreiningar. Það er um 13,3% af því hlutafé sem heimilt var að gefa út. 

Eins og áður hefur komið fram var allt hlutafé Íslenskar erfðagreiningar selt á 415 milljónir dollara, eða um 52 milljarða króna, til bandaríska fyrirtækisins Amgen.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.