Lausbeisluð samtök vefklámiðnaðar í Bandaríkjunum halda ráðstefnu sína, SnowGathering, öðru sinni og verður hún á Hótel Sögu dagana 7.-11. mars næstkomandi. Í frétt um ráðstefnuna á vefritinu PR Adult News segir að SnowGathering sé "vettvangurinn til þess að mynda viðskiptatengsl, kynnast nýju fólki og ræða viðskiptahugmyndir á sviði vefklámiðnaðar ásamt því að njóta ævintýralegra daga í vetrarsólinni."

Skipuleggjandi ráðstefnunnar er klámsíðan Freeones.com. Samkvæmt henni var sams konar ráðstefna haldin í Austurríki í fyrra en nú sé stefnt að enn stærri og meiri viðburði með þáttöku 150 gesta. Ísland hafi verið valið sem áfangastaður vegna mikilla möguleika í afþreyingu innandyra og utanhúss auk alræmds (e. infamous) næturlífs.

Ráðstefnugestir gista á Hótel Radisson SAS Hótel Sögu í fjórar nætur. Meðal þáttakenda verða Scott og Grant Hjorleifsson, bræður frá Manitoba í Kanada, en sá fyrrnefndi rekur klámvefinn Sleazydream.com, sem í úttekt á www.avnonline.com, er sagður einn mest sótti klámvefur heims.

Talsverð umræða hefur verið um fyrirhugaða ráðstefnu á spjallsíðum á feministinn.is. Þar segir Silja Bára Ómarsdóttir, sem kennir stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, að hún eigi von á gestum til landsins og eigi bókuð tíu herbergi á Hótel Sögu. Hún ætlar að flytja þá annað og láta hótelið vita af ástæðunni.

"Það eru mér vonbrigði að virðuleg fyrirtæki taki þátt í þessum bransa," segir Silja Bára. "Þetta eru peningar sem ég kæri mig ekki um að komist í umferð hérlendis. Það tíðkast í mörgum löndum að fólk í ferðum á vegum hins opinbera megi ekki gista á hótelum þar sem boðið er upp á klám eða vændi. Það eru fá hótel hérlendis sem hafa tekið afstöðu gegn klámi hérlendis. Viðskiptaval er einn af örfáum möguleikum sem hægt er að grípa til í því skyni að hafa áhrif á fyrirtæki. Þannig kem ég mínum skoðunum á þessu máli á framfæri. Ég kæri mig ekki um að eiga viðskipti við Hótel Sögu og um leið bendi ég öðrum sem eru að fá gesti hingað á sínum vegum á þennan möguleika," segir Silja Bára.

Hrönn Greipsdóttir, hótelstjóri á Radisson SAS Hótel Sögu, segir að sér komi þessi umræða undarlega fyrir sjónir. Það sé ekki venjan að spyrja gesti hótelsins við hvað þeir fást og taka afstöðu til þeirra út frá því. Hún segir að pöntun fyrir þennan hóp hafi komið í gegnum ferðaskrifstofu sem hótelið hafi ekki áður verið í viðskiptum við en það hafi verið mjög faglega að málum staðið og gistingin hafi þegar verið greidd. Hún segir það ekki hlutverk hótelsins að taka siðferðislega afstöðu í þessu máli enda hafi það engar forsendur haft fyrir því.

Engin starfsemi tengd klámiðnaði fari fram á hótelinu. Hún kvaðst ekki kannast við það að ráðstefna færi fram á vegum þessa hóps og ráðstefnusalir hafi ekki verið pantaðir af honum. Hrönn segir að eins og á flestum öðrum hótelum á Íslandi sé boðið upp á erótískt efni á sérstakri rás í sjónvarpskerfi Hótel Sögu sem þarf að greiða sérstaklega fyrir.