Verðmæti Íslandsbanka hefur aukist nokkuð myndarlega frá því að íslenska ríkið tók við 95% hlut í honum árið 2016. Markaðsvirði bankans í dag er rétt tæplega 250 milljarðar króna miðað við gangvirði í lok dags á föstudag, og hefur aukist um rétt um 100 milljarða, eða um 65 sé leiðrétt fyrir verðbólgu. Að 72 miljarða arðgreiðslum meðtöldum virðist hann því hafa skilað hátt í 150 milljörðum að núvirði umfram markaðsvirði síðan þá.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hélt því fram í Sprengisandi fyrir viku síðan að bankinn hefði þvert á móti rýrnað síðan ríkið tók við honum.

Bar eigið fé við afhendingu saman við vænt söluandvirði
Bankinn var afhentur íslenska ríkinu sem hluti af svokölluðu stöðugleikaframlagi skilanefndar Glitnis í ársbyrjun 2016, og var þá færður í bækur ríkisins sem 185 milljarða króna eign, en það var bókfært eigið fé hans á þeim tíma.

Björn Leví studdi fullyrðingu sína um virðisrýrnun bankans í höndum ríkisins með vísun í nýleg orð Lilju Alfreðsdóttur viðskiptaráðherra á Alþingi þar sem hún vísaði í virði hans í bókum ríkisins við afhendinguna.

Björn bar síðan þá fjárhæð á verðlagi dagsins í dag, 231 milljarð króna, saman við söluandvirði þess hlutar sem ríkið hefur nú selt í honum, að viðbættu markaðsvirði þess hlutar sem það enn heldur á, sem alls gerir 217 milljarða.

Inn í þennan samanburð vantar hins vegar þá 72 milljarða sem bankinn hefur greitt til ríkisins í millitíðinni, sem Lilja tíundaði í þingræðunni og fékk þannig út að heildarvirði stöðugleikaframlagsins væri því komið í 275 milljarða.

Ítarlegt mat lagt á markaðsvirði Landsbankans í sama mánuði
Verðmat fjármálafyrirtækja er þó nokkru flóknari fræði en ofangreindir útreikningar bera með sér. Fyrir það fyrsta er markaðsvirði sjaldnast jafnt bókfærðu eigin fé einu og sér, heldur getur það verið hvort heldur sem er yfir eða undir því eftir því hversu arðbær þau eru, en árið fyrir afhendinguna var arðsemi eigin fjár Íslandsbanka 10,2%, sem kalla má þokkalegt.

Sama mánuð og afhending Íslandsbanka til ríkisins fór fram, janúar 2016, gaf Bankasýslan út minnisblað um hugsanlega sölu Landsbankans, þar sem nokkuð ítarlegt mat er lagt á líklegt markaðsvirði hans miðað við aðstæður þess tíma.

Bankasýslusamanburður
Bankasýslusamanburður

Þar er meðal annars að finna arðsemistölur og hlutfall markaðsvirðis og eigin fjár (svokallað P/B-hlutfall) fjölda erlendra banka sem Bankasýslan taldi hvað samanburðarhæfasta við þá íslensku. Miðað við það samband þessara tveggja breyta sem af því má leiða hefði 10,2% arðsemi skilað markaðsvirði upp á ríflega 1,1-falt bókfært eigið fé, eða ríflega 200 milljarða króna fyrir Íslandsbanka.

Markaðsvirðið við afhendingu um 150 milljarðar
Afkoma bankans það ár, og raunar allra íslensku bankanna í fleiri ár eftir hrun, litaðist hins vegar verulega af uppfærslu á útlánasöfnum sem höfðu verið færð verulega niður vegna hrunsins.

Samkvæmt greiningu Snorra Jakobssonar – stofnanda og eiganda Jakobsson capital sem sérhæfir sig einna helst í að verðmeta skráð fyrirtæki – á grunnrekstri Íslandsbanka frá 2014 til og með 2021 var arðsemi áframhaldandi rekstrar því aðeins 7,1% árið 2015.

Sé þeirri tölu smellt inn í áðurnefnda greiningu Bankasýslunnar fæst eiginfjármargfaldari upp á um það bil 0,8, sem gerir 148 milljarða króna markaðsvirði eða 185 milljarða á verðlagi dagsins í dag. Sama hvernig á það er litið virðist því allt benda til þess að virði Íslandsbanka hafi aukist frá því að ríkið fékk hann í fangið.

Burtséð frá allri slíkri talnaleikfimi segir Snorri ennfremur, og styður með vísun í áðurnefnda greiningu sína, að áframhaldandi rekstur Íslandsbanka sé nokkuð óumdeilanlega sterkari í dag en árið 2016. Reksturinn hafi vitanlega versnað fyrstu árin eftir að ríkið tók við bankanum, en í kjölfarið tekið að styrkjast á ný og gert það á hverju ári síðan.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .