Torg ehf., útgáfufélag Fréttablaðsins og annarra miðla, hefur aukið um hlutafé sitt um 150 milljónir króna. Aðalhluthafi félagsins, Hofgarðar ehf. í eigu Helga Magnússonar, keypti allt umrætt hlutafé fyrir 300 milljónir króna. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Í fréttinni segir að eftir hlutafjáraukninguna nemi heildarhlutafé Torgs ehf. 750 milljónum króna, sem allt hafi verið keypt á genginu tveimur fyrir samtals 1,5 milljarða króna.

Torg gefur út Fréttablaðið og viðskiptablaðið Markaðinn og rekur til að mynda vefmiðlana DV.is, Fréttablaðið.is, Markadurinn.is Hringbraut.is, Eyjan.is og 433.is. Félagið rekur einnig sjónvarpsstöðina Hringbraut og á og rekur eigin prentsmiðju, að því er kemur fram í fréttinni.