Hlutafé Torg ehf., útgefanda Fréttablaðsins, var aukið af 365 miðlum um 149,5 milljónir króna í lok síðasta árs. 365 miðlar færðu rekstur Fréttablaðsins yfir í Torg, eftir kaup Sýnar á öðrum fjölmiðlum 365 miðla í desember. Greitt var fyrir aukið hlutaféð með þeim eignum sem 365 miðlar lögðu í Torg samkvæmt gögnum sem fyrirtækið sendi inn til fyrirtækjaskrár.

Þar kemur fram að yfirfærsla verðmæta 365 miðla til Torgs byggist á bókfærðu verði í reikningsskilum 365 miðla en framkvæmd hafi verið sérstök yfirferð á eignunum með tilliti til virðisrýrnunar. Þá staðfestu stjórnarmenn og löggiltur endurskoðandi að þær eignir sem færðar hafi verið yfir í Torg væru að minnsta kosti 149,5 milljóna króna virði.

Ekki liggur fyrir hvert bókfært virði eignanna er en 365 miðlar hafa ekki skilað ársreikningum fyrir árin 2016 og 2017.