Næstkomandi fimmtudag 24. september verður aðalfundur Eignarhaldsfélags Suðurnesja haldinn í Reykjanesbæ. Á fundinum verður afgreidd tillaga fráfarandi stjórnar um að félagið leggi til allt að 150 milljónir króna til eflingar atvinnulífs á Suðurnesjum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjanesbæ en tillagan er svohljóðandi : „Stjórn félagsins leggur til við hluthafafund að félagið ráðstafi allt að 150 milljónum af lausafé félagsins til eflingar atvinnulífs á Suðurnesjum, með veitingu lána, hlutafjárkaupum eða styrkjum, samkvæmt nánari reglum sem stjórn félagsins setur sér.“

Í tilkynningunni kemur fram að ekki sé reiknað með öðru en hluthafafundur samþykki tillöguna og ný stjórn sem kjörin verður á aðalfundinum geti strax í framhaldi auglýst eftir umsóknum til styrkingar atvinnulífinu á svæðinu og verkefnum sem skapað geta ný störf.

Eignarhaldsfélag Suðurnesja er í 70% eigu ríkisins og Byggðastofnunar 20% í eigu sveitarfélaganna á Suðurnesjum og 10% í eigu Lífeyrissjóðsins Festu og annarra fagfjárfesta.