Borgarráð samþykkti á fundi sínum í morgun tillögur atvinnumálahóps Reykjavíkur um úthlutun á 150 milljónum króna til sérstakra atvinnuátaksverkefna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg en borgarstjórn samþykkti á fundi í desember sl. tillögu borgarstjóra um að veita 150 milljónum til sérstakra átaksverkefna og var atvinnumálahópi Reykjavíkurborgar falið að koma með tillögur um hvernig verja skyldi fénu.

Í tilkynningunni kemur fram að 80 m.kr. verður varið í atvinnuskapandi verkefni á sviðum borgarinnar, 30  m.kr. verður varið í atvinnusköpun og verkefni í þágu ungs fólks, 20 m.kr. verður varið í virkniverkefni fyrir fólk sem þiggur fjárhagsaðstoð og er án atvinnuleysisbóta og 10 m.kr. verður varið í sérstakan pott undir umsjón mannréttindastjóra og mannauðsstjóra í þágu starfsfólks með fötlun.

Þá verður 3 m.kr. varið í ráðningu sérstaks verkefnisstjóra á mannauðsskrifstofu sem hafi umsjón með þeim verkefnum sem farið verður í og 7 m.kr. verður varið til að greiða laun námsmanna sem vinna að verkefnum styrktum af Nýsköpunarsjóði námsmanna sem svið og stofnanir borgarinnar kunna að fá.