Í nóvember féll enn eitt metið í ferðaþjónustu hér á landi með 150 þúsund brottförum erlendra ferðamanna frá Keflavíkurflugvelli að því er Morgunblaðið segir frá. Það er 3,7% aukning frá því í nóvember í fyrra.

Jafnframt er útlit fyrir metfjölda ferðamanna í desember, en þar horfir Ferðamálastofa til margra frídaga yfir hátíðirnar. Samtök ferðaþjónustunnar sjá svo fram á að vöxturinn í greininni verði á bilinu 3-5% á næsta ári. Bendir SAF þó á að bæði framboð flugferða og komandi kjarasamningar séu þar miklir óvissuþættir.

Þegar næstum jafnmargar og allt árið í fyrra

Fyrstu 11 mánuði ársins voru samanlagt tæplega 2,178 milljónir brottfara, en allt árið í fyrra voru þær 2,195 milljónir, svo útlit er fyrir að þær verði í ár a.m.k. 2,314 milljónir í ár, það er ef desember verði jafnstór og fyrir ári.

Þá fóru 135.240 manns frá landinu, en m.v. 5% vöxt frá síðasta ári má búast við að fleiri fari frá landinu í desember í ár en í júní árið 2015 þegar þeir voru 135.314. Þá yrði þetta ár enn eitt metárið en gangi spár um 5% fjölgun á næsta ári eftir verður fjöldinn kominn í 2,43 milljónir brottfara næsta ár.

Löng jólahelgi ýtir undir eftirspurn

Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri bendir á að fyrst aðfangadag ber upp á mánudegi verði mögulegt fyrir marga ferðamenn að taka langa jólahelgi, sem geti aukið eftirspurn. Alla jafna sé fyrri hluti desember þó rólegur að hans sögn.

Yngvi Harðarson framkvæmdastjóri Analytica, sem metið hefur áhrif flugfargjalda á eftirspurn eftir millilandaflugi um Keflavíkurflugvöll, bendir á að lækkandi eldsneytisverð dragi úr þörf flugfélaganna á hækkun flugfargjalda.

Eins og komið hefur þó fram í umræðunni lengi þurfi það samt sem áður að hækka, það hafi í einhverjum tilfellum verið undir kostnaðarverði, en það þýðir aftur að bæði erlendum ferðamönnum og skiptifarþegum sem millilenda í Keflavík muni fækka.