Við uppbyggingu kísilvers á Bakka við Húsavík hafa komið upp dæmi um að undirverktakar hafi greitt mönnum í kringum 150 þúsund krónur á mánuði fyrir 120-130% starfshlutfall. Þetta segir Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður stéttarfélagsins Framsýnar í Morgunblaðinu í dag.

Með 588 króna tímakaup

Nefnir hann dæmi um fyrirtæki sem ætlaði að greiða starfsmönnum sínum 588 krónur á tímann en fylla síðan uppí lágmarkslaunin með dagpeningum til að sleppa sem ódýrast. Einnig nefnir hann að erlendir starfsmenn fái sumir hverjir ekki launaseðla eða aðrar staðfestingar á launagreiðslum sínum.

Segir Aðalsteinn þó vandann einskorðast við undirverkta og gott samstarf sé við aðalverktaka og verkkaupa á svæðinu, en auk framkvæmda við byggingu álversins sjálfs á Bakka þar sem verið er að reisa yfir þrjátíu byggingar, eru í gangi hafnarframkvæmdir á svæðinu, bygging stöðvarhúss, 61 kílómetra línulögn og borun eftir heitu vatni á Þeistareykjum.