Tæplega 150 þúsund forpantanir hafa borist fyrir nýjum pallbíll Tesla , sem kynntur var á fimmtudag. Forpöntun kostar þó aðeins 100 Bandaríkjadali, rúmar 12 þúsund krónur, og er endurgreiðanleg. Musk greindi frá þessu í tísti í gær.

Kynningin á fimmtudag gekk nokkuð brösulega, en þegar kom að því að sýna styrk herta rúðuglersins með því að henda í tvær þeirra stálkúlu sprungu þær báðar. Tesla segir ástæðuna hafa verið að þegar hurðin sjálf var lamin með sleggju á undan hafi rúðurnar runnið örlítið til.

Óhætt er að segja að bíllinn sé nokkuð óhefðbundinn í útliti, og skoðanir hafa verið skiptar. Hlutabréf Tesla féllu um 6,1% í kjölfar kynningarinnar.

Jafnframt kom fram í tístinu að aðeins um 17% hafi pantað ódýrustu útgáfuna, sem kostar 40 þúsund dali, en afgangurinn skiptist nánast jafnt milli þeirrar næst dýrustu á 50 þúsund dali, og þeirrar dýrustu sem kostar 70 þúsund dali, um 8,6 milljónir króna.

Musk tók einnig fram að bíllinn hafi ekkert verið auglýstur, né hafi neinar kostaðar kynningar farið fram.

Til mikils er að vinna fyrir Tesla gangi salan vel. Pallbílamarkaðurinn í Bandaríkjunum er afar stór, og álagningin almennt meiri en af minni og ódýrari bílum.