Vegagerðin hefur fengið 150 tilkynningar það sem af er ári vegna tjóna sem orðið hafa vegna gatnakerfisins en í fyrra voru 110 slík tjón yfir allt árið. G. Pétur Matthíasson, deildarstjóri samskiptadeildar Vegagerðarinnar, segir að langflest þessara tjóna séu vegna hola í vegum. Hann segir líklegt að tjónin séu allt frá því að vera fáir tugir þúsunda upp í að vera yfir hundrað þúsund. „Við erum svo stöðugt að gera við holur og það er farið að ganga betur nú síðustu daga. Við erum með þrjá verktaka í þessum viðgerðum ásamt því að starfsmenn þjónustustöðvarinnar í Hafnarfirði sinna líka þessum viðgerðum. Það er svo aukið vandamál að holurnar koma aftur og aftur eða við hliðina á holunni sem var verið að gera við dagana áður og skýrist það af tíðarfarinu.“ Tryggingafélögin hafa einnig fundið fyrir aukningu tilkynninga vegna slíkra tjóna en tjónin eru að mestu ekki bótaskyld.